FRÉTTATILKYNNING

Ný bók - innbundin og í kilju


ÓVART Í SVIÐSLJÓSI Stefnulausar senur á leiksviði hversdagslífsins

     Bókin fjallar um spaugilega viðburði sem gerast í daglegu amstri. Hún samanstendur af  107 skopteikningum ásamt meðfylgjandi textum. Þrettán sjálfstæðir kaflar eru sviðssenur bókarinnar með sitt hvert viðfangsefni og varpa ljósi á ýmiss konar skrautlegar kringumstæður sem eru augljóslega stefnulaust sviðsettar á handahófskenndu leiksviði hversdagslífsins. Persónurnar eiga bæði leiksviðið og orðið. Þetta sómafólk skellir sér umsvifalaust í þýðingarmikil hlutverk, lifir sig inn í þau og túlkar fjölskrúðuga viðburði af glæsibrag – en í raunveruleikanum eru þau öll berskjölduð í hlutverkum sínum.  

     Lýsingin á bakhlið bókarkápunnar miðlar innihaldinu svohljóðandi: „Skopteikningarnar í bókinni eru fyrir alla sem hafa áhuga á húmor og háðsádeilu og vilja líta með sposkum augum á mannlífið, samfélagið og umfram allt á okkur sjálf í hugsanlega svipuðum hlutverkum. Teikningarnar endurspegla írónískar aðstæður og lýsa einstökum grátbroslegum atvikum, oft sem ímynduðum hugmyndum en einnig sem upplifuðum og sannsögulegum staðreyndum. Fjölmörg glettileg atriði á leiksviði hversdagslífsins eru hér opinskátt skjalfest. Skopteikningarnar eru vandlega skissaðar skyndimyndir og fígúrurnar ráða ríkjum á leiksviðinu. Þær taka þátt í ýmsum hlutverkum þar sem þær bregða sér á leik við undarlegar aðstæður og flytja gjörningana grandgæfilega, en að því er virðist alveg óvart.“  

     Skopteikningarnar í bókinni birta ekki einungis broslegu hliðina á tilverunni, heldur vekja þær til dýpri umhugsunar. Í inngangi bókarinnar segir: „Kunnuglegar persónur sjást oft í sviðsljósinu; skrautlegir karakterar og skringilegar týpur koma fram í beinni útsendingu í hinum ýmsu hlutverkum. Óreiðan hefur þegar tekið sína stefnu á undraverðan hátt. Spurningin er: Eru þetta kannski vinsælustu hlutverkin á leiksviði örlaganna eða er þetta jarðneska líf einfaldlega sambærilegt við brúðuleikhús eða teiknimyndseríu?“  

     Bókin var gefin út hjá bókaforlaginu BoD í Þýskalandi í ágúst 2025 og er nú fáanleg í flestum bókaverslunum á Íslandi, bæði í kilju og í innbundnum eintökum. Þetta er önnur skopteikningabók Salbjargar, áður útkomin bók ber nafnið „ÓMSTRÍÐIR TÓNAR – Skopteikningar úr tónlistarheiminum“ og hefur sú bók einnig verið gefin út aftur á þessu ári, endurhönnuð í nýrri útgáfu á íslensku, bæði í kilju og innbundin.  

     Höfundurinn, Salbjörg Sveinsdóttir Hotz hefur teiknað skopteikningar allt frá bernskuárum. Hún ólst upp í Hnífsdal og hlaut tónlistarmenntun með píanóleik sem aðalfag á Ísafirði, í Reykjavík og síðan í Vínarborg þar sem hún stundaði jafnframt myndlistarnámskeið í skopteikningu. Hún verið sjálfstætt starfandi á sviði tónlistarflutnings, tónsmíða og skopteikninga um áraskeið í Sviss. Úrval af tónverkum hennar hefur verið gefið út á hljóðritum og fjölmargar teikningar eftir hana hafa birst reglulega í blöðum, bókum og bæklingum. Auk þess hafa margar skopteikningar hennar verið sýndar á myndlistarsýningum í ýmsum löndum.  

Fleiri upplýsingar um bókina er að finna á eftirfarandi tengil útgáfuforlagsins og einnig er hægt að skoða þar fyrstu síðurnar á „Jetzt probelesen.“
https://buchshop.bod.de/ovart-i-svisljosi-salbjoerg-hotz-9783819242601


Viðauki við fréttatilkynningu

     Eftirfarandi þrjú sýnishorn eru nokkrar skopteikningar úr bókinni þar sem er skírskotað á ýmsa vegu til daglegs athæfis fólks. Í kaflanum „Fagmannlegir áhrifavaldar“ eru birtar myndir af fyrirmyndar góðborgurum sem kunna vel að ota sínum tota. Til að ráðskast með aðra er frábært að vera orðsnjall og til nota aðstöðu sína í hagnaðarskyni er klárlega best að vera ansi kokhraustur. Í inngangi kaflans segir: „Viðurkenninguna fá þeir sem eru málglaðir og heilla aðra með sannfæringarkrafti sínum. Sú valdastaða sem hagsmunaaðilarnir sækjast eftir birtist í allri sinni dýrð. Markviss yfirbugun með slagkrafti er hinn raunverulegi galdur!

 

„Blabla, blabla!“

     Kaflinn „Ljúffengar kræsingar“ sýnir myndir af veisluhöldum og ánægjulegum stundarkornum við hlaðborð, hvort sem það gerist í einrúmi, opinberlega, á ferðalaginu eða í lautarferðum úti í náttúrunni. Samsvarandi inngangur að kaflanum er eins konar leiðarvísir: „Vinsæl athöfn í daglegu lífi er að fást við mat. Að safnast saman við borð sem hlaðin eru matreiddu góðgæti er sannkölluð upplifun fyrir öll skilningarvit þátttakenda, sem og fyrir áhorfendur.“ Og auðvitað má ekki missa af umbuninni fyrir vel heppnaða megrunarkúra.

„Ég er búin að vera í megrun svo lengi og núna þegar það er loksins eitthvað
almennilegt að borða þá vil ég vera fyrst til að sturta mér á það!“

     Teiknimyndirnar lýsa daglegum störfum fólks frá ýmsum sjónarhornum. Æruverðugar og gamalgrónar atvinnustéttir verða  fyrir barðinu á teiknipennanum, þar á meðal tannlæknar, hárgreiðsludömur, efnafræðingar og skrifstofufólk, jafnt sem þrifnaðarsérfræðingar, forstjórar og búðarlokur.  Allt eru þetta að sjálfsögðu fagmannlegar uppákomur á tilviljanakenndu leiksviði hversdagslífsins.  

    Eftirfarandi inngangur fylgir tiltekinni senu, „Nýstárlegar aðferðir“ og hér er tannlæknastofan tekin sem lýsandi dæmi um eina af mörgum mikilvægum atvinnustéttum. Kannski er ráðlegt að taka viljann fyrir verkið í öllum þessum tilfellum, í inngangi kaflans er eftirfarandi lýsing: „Nýstárlegar og frumlegar aðferðir í verki eru oft kveikjan að furðulegum vinnubrögðum og spunnum aðgerðum. Þannig koma óhefðbundnir og jafnvel hasarkenndir starfshættir til að vera iðkaðir.“  

Hér eru gervitennur fyrir geislandi bros!“

 „Fjandinn hafi það," hugsaði sjúklingurinn skelfingu lostinn.
„Hver ákvað það? Það var bara ein vísdómstönn sem átti að fjarlægja!“

     Eins og myndin ljóstrar upp á einfaldan hátt þá geta velviljaðar vísbendingar og artarlegar tilskipanir veitt fólki spes upplifun og óvæntan yndisauka sem reyndar þarf að venjast einhvern tíma í framtíðinni …